Gul viðvörun: Inn með trampólín og garðhúsgögn

Mynd/Veðurstofa Íslands

Fyrsta haustlægðin er væntanleg á sunnudag en Veðurstofan varar við suðaustan hvassviðri eða stormi, 15-23 m/sek á Suðurlandi. 

Það gengur í suðaustan slagviðri um hádegi með talsverðri eða mikilli rigningu en búið er að gefa út gula viðvörun fyrir Suðurland sem gildir frá kl. 15 á sunnudag til miðnættis.

Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s, einkum undir Eyjafjöllum. Aðstæður verða varasamar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. 

Það lægir um kvöldið en fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum s.s. trampolínum og garðhúsgögnum til að forðast tjón. Hlutir sem þessir eiga það bæði til að fjúka út í buskann eða yfir til nágrannans.

Fyrri greinHólmfríður best í umferðum 7-12
Næsta greinFriðrik með risaurriða úr Grænavatni