Gul viðvörun: Íbúar hugi að lausamunum

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland sem gildir frá klukkan 21 á föstudagskvöld til klukkan 9 á laugardagsmorgun.

Gert er ráð fyrir suðaustan 15-23 m/s og rigningu, hvassast og úrkomusamast verður við ströndina og undir Eyjafjöllum.

Búast má við hviðum undir Eyjafjöllum allt að 40 m/sek og verður varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind að vera á ferðinni.

Á Suðausturlandi gildir viðvörunin frá miðnætt til klukkan 14 á laugardag. Hvassast verður í Mýrdalnum og í Öræfum með hviðum yfir 40 m/s. Búast má við sandfoki og er fólk er hvatt til að sýna aðgát.

Veðurstofan hvetur Sunnlendinga til þess að huga að lausamunum áður en veðrið skellur á.

Fyrri greinÆgir spilar heimaleik í Kórnum
Næsta greinVeglokunum aflétt og rennsli fer minnkandi