Uppfært í appelsínugula viðvörun

Ljósmynd/Landsbjörg

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Suðurland á gamlársdag. Viðvörunin tekur gildi klukkan 7 í fyrramálið og gildir til klukkan 15. Gul viðvörun er frá klukkan 2 í nótt til klukkan 7 og svo aftur frá klukkan 15 á gamlársdag til klukkan 12 á nýársdag.

Í nótt má búast við snjókomu og skafrenningi með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Á meðan appelsínugula viðvörunin er í gildi má búast við austan 13-20 m/sek og mikilli snjókomu við suðurströndina og undir Eyjafjöllum fyrir hádegi. Hvassast verður við ströndina og til fjalla. Búast má við skafrenningi með takmörkuðu eða lélegu skyggni og ófærð. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám og upplýsingum um færð.

Frá miðjum degi á gamlársdag og fram að hádegi á nýjársdag verður vestan 10-18 m/sek en sums staðar hvassara í éljum. Gengur á með dimmum éljum og skafrenningi og líkum á samgöngutruflunum.

Fyrri greinÓmar Ingi íþróttamaður ársins og Þórir þjálfari ársins
Næsta greinÁslaug og Jónas kaupa Blómaborg