Gul viðvörun: Hætta á krapaflóðum og skriðuföllum

Ingólfsfjall. Ljósmynd/Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands

Mjög djúp lægð er væntanleg að Hvarfi í fyrramálið og sendir hún skil yfir landið með stormi eða roki, talsverðri rigningu og hlýnandi veðri.

Gefin hefur verið út gul viðvörun fyrir Suðurland og gildir hún frá hádegi á mánudag til klukkan 17. Þá er búist við suðaustan 18-25 m/sek og talsverðri rigningu. Í fyrstu verður snjókoma og slydda á fjallvegum. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 30 m/s, einkum undir Eyjafjöllum, við Ingólfsfjall og á heiðum.

Þá varar veðurstofan við auknu afrennsli og vatnavöxtum sem eykur hættu á krapaflóðum og skriðuföllum og getur valdið tjóni.

Á Suðausturlandi gildir gula viðvörunin frá klukkan 15 og fram yfir miðnætti. Þar er einnig varað við vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum – og veldur álagi á fráveitukerfi. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og einnig að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Vegir á óvissustigi
Vegagerðin hefur sett Hellisheiði og Þrengsli á óvissustig frá klukkan 8-19 og verður jafnvel loka. Sama staða er á Suðurstrandarvegi frá kl. 8-17 og á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði frá klukkan 12-18.

Fyrri greinSigurför Hamars-Þórs heldur áfram
Næsta greinÁlfheiður sigraði hjá Pírötum í Árborg