Gul viðvörun á fimmtudag

Ljósmynd / Mats Wibe Lund

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland og Suðausturland sem gildir frá fimmtudagsmorgni og fram á kvöld.

Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi klukkan 9 í fyrramálið. Gert er ráð fyrir austan hvassviðri, 13-18 m/s austantil, og hvessir enn frekar síðdegis. Búast má við 18-23 m/sek undir Eyjafjöllum og við Reynisfjall fimmtudagskvöld og allt að 30 m/sek staðbundið í hviðum. Varhugavert ferðaveður verður fyrir ökutæki og tengivagna sem taka á sig mikinn vind.

Á Suðausturlandi tekur viðvörunin gildi klukkan 12 en hvassast verður síðdegis, 18-23 m/sek í Öræfum á fimmtudagskvöld og vindhviður allt að 35 m/sek.

Fyrri grein„Verðum vel samkeppnishæfar í Olísdeildinni“
Næsta greinJafnt í Suðurlandsslagnum – Fyrsti sigur Stokkseyrar