Gufusprengingar í Hvannárgili

Almannavarnarnefnd biður fólk að fara varlega við gosstöðina og í grennd hennar. Litlu mátti muna að slys yrði í dag þegar gufusprenging í Hvannárgljúfri þeytti 2-3 kg hnullungum upp á brúnina þar sem fólk var. Myndarlegt sveppalaga ský fylgdi í kjölfarið og steig það hátt til himins. Gufusprengingar geta fyrirvaralaust orðið þar sem hraunið fer um og mætir vatni eða snjó.

Almannavarnanefnd og vísindamenn komu saman í dag á fundi þar sem ákveðið var í ljósi stöðunnar að vegurinn inn í Þórsmörk verði áfram lokaður almennri umferð a.m.k. fram yfir helgi. Vakin er sérstök athygli á því að þetta á einnig við um leiðina yfir Markarfljót enda þurfa menn að fara leið sem er lokuð umferð vegna aurbleytu.

Fólk sem hyggst fara austur til að skoða eldgosið er hvatt til þess að kynna sér vel veðurspá áður en lagt er af stað.

Fyrri greinNágrannavarsla hafin í Hveragerði
Næsta greinHamar-KR 1-0: Frábær leikur Kristrúnar