Gufuhlíð með allt Í góðu lagi

Garðyrkjustöðin Gufuhlíð er rekin af hjónunum Helga Jakobssyni og Hildi Ósk Sigurðardóttur. Ljósmynd/Aðsend

Í síðustu viku tóku eigendur og forsvarsmenn garðyrkjustöðvarinnar Gufuhlíðar í Reykholti í Bláskógabyggð við vottunarstaðfestingu á verkefninu Í góðu lagi, sem er nýlegt vottunarkerfi sem sýnir að vinnustaðir fari eftir leikreglum vinnumarkaðarins.

Garðyrkjustöðin Gufuhlíð er rekin af hjónunum Helga Jakobssyni og Hildi Ósk Sigurðardóttur. Gufuhlíð notast eingöngu við lífrænar varnir í sinni ræktun og árleg framleiðsla nemur um 1.000 tonnum á ári sem gerir um 2,7 milljónir af agúrkum á ári hverju.

Hildur Ósk og Halldóra S. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, undirrituðu samkomulagið og Kristín Linda Sveinsdóttir, markaðsstjóri SFG, var viðstödd fyrir hönd Sölufélags garðyrkjumanna. Ljósmynd/Aðsend

Í júlí síðastliðnum undirrituðu Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn samstarfssamning um vottunarmerkið Í góðu lagi. Merkið sýnir að fyrirtæki fari eftir kjarasamningum og almennum leikreglum vinnumarkaðarins og byggir á trausti, gagnsæi og sanngirni.

Vottunarferlið felur í sér heimsókn á vinnustað og yfirferð á gögnum sem varpa ljósi á starfsaðstæður, ráðningarsamninga, launagreiðslur og réttindi starfsfólks. Verkefnið miðar að því að gera sýnilegt á milli aðila hvaða vinnustaðir fylgja settum leikreglum og styðja þannig við ábyrga atvinnurekendur.

Gufuhlíð er fjórði vinnustaðurinn sem fær vottun samkvæmt kerfinu, á eftir Ártanga í Grímsnesi, Friðheimum í Reykholti og Hveravöllum í Reykjahverfi.

Fyrri greinVel sótt útgáfuhóf Ljóðakistunnar
Næsta greinHlaup hafið í Skaftá