Guðný Ósk dúxaði í FSu

Guðný Ósk ásamt Soffíu skólameistara, Sigursveini aðstoðarskólameistara og Sigþrúði Harðardóttur, formanni Hollvinasamtaka FSu. Ljósmynd/FSu

Guðný Ósk Atladóttir frá Hvolsvelli er dúx Fjölbrautaskóla Suðurlands á nýliðinni haustönn. Sextíu nemendur brautskráðust frá skólanum í dag.

Guðný Ósk lauk námi sínu með framúrskarandi árangri í flestum greinum. Auk þess að hljóta styrk frá Hollvarðasamtökum skólans fékk hún sérstakar viðurkenningar í þýsku, íslensku, viðskipta- og hagfræðigreinum, ensku, félagsgreinum og stærðfræði.

Sem fyrr segir brautskráðir 60 nemendur frá skólanum af tíu námsbrautum. Í hópnum voru 36 stúdentar, tuttugu af öðrum brautum og fjögur útskrifast úr starfsnámi með stúdentspróf að auki. Einn lauk stúdentsprófi af tveimur brautum. Flestir stúdentar útskrifast af opinni línu eða sautján talsins, auk þess má nefna að tólf útskrifuðust af pípulagnabraut og níu af sjúkraliðabraut.

Í ræðu sinni lagði skólameistari Soffía Sveinsdóttir út af ýmsum þjóðþrifamálum og meðal annars varðveislu íslenskrar tungu. Hún hvatti nemendur til að huga að kunnáttu sinni í móðurmálinu og lesa meira á íslensku.

Athöfnin í dag var bæði skemmtileg og hátíðleg, kór FSu steig á stokk og flutti tvö lög, Sigursveinn Sigurðsson aðstoðarskólameistari flutti annarannál og Soffía skólameistari og Anna Nesterenco, fulltrúi nýstúdenta, fluttu ávörp.

Fyrri greinAnnar sigur Hamars