Guðni Th tók á móti 1. bekk á Þingvöllum

Ljósmynd/ML

Síðastliðinn mánudag fóru kennarar í umhverfis- og vistfræði með fyrsta árs nema í Menntaskólanum að Laugarvatni til Þingvalla. Markmið ferðarinnar var að skoða þjóðgarðinn, sjá urriðann í Öxará og skoða þá þjónustu sem boðið er upp á í þjóðgarðinum.

Veðrið var því miður ekki upp á marga fiska, grenjandi rigning, rok og þoka sem faldi fjallasýnina. Haustlitir birkisins voru foknir í fyrsta stormi haustsins en lággróðurinn var í haustlitunum og því afar fallegt um að litast.

Sjálfur Guðni Th. Jóhannesson, fyrrum forseti Íslands, tók á móti hópnum og fór yfir sögu Þingvalla af sinni alkunnu snilld. Torfi Stefán Jónsson fræðslufulltrúi á Þingvöllum var með Guðna og sagði hópnum meira frá sögunni, náttúrunni og ferðamanninum. Gengið var að Flosagjá og farið yfir Öxará þar sem hægt var að skoða urriðann. Þaðan var gengið í Almannagjá að Drekkingarhyl, þar sem Torfi fór vel yfir refsingar og fullnustu þeirra á árum áður og í lokin var gengið upp á Hakið.

Í gestastofunni fékk hópurinn svo fyrirlestur um þjóðgarðinn, vatnasvið Þingvallavatns og innviðauppbyggingu til að vernda staðinn fyrir álagi vegna sívaxandi fjölda ferðamanna og í lokin gafst góður tími til að skoða sýninguna í gestastofunni. Þannig lauk heimsókninni, sem tókst vel í alla staði.

Ljósmynd/ML

Heimasíða ML

Fyrri greinSkellur í Eyjum
Næsta greinEinar býður sig fram til ritara Framsóknar