Guðni og Eliza gerðu víðreist um Mýrdalshrepp

Forsetahjónin voru heiðursgestir á árshátíðarsýningu Víkurskóla á leikritinu Emil í Kattholti. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reed fóru í tveggja daga opinbera heimsókn í Mýrdalshrepp í upphafi vikunnar.

Þar heimsóttu þau helstu stofnanir sveitarfélagsins og ræddu við íbúa á öllum aldri. Forsetahjónin heimsóttu meðal annars hjúkrunar- og dvalarheimilið Hjallatún, heilsugæslustöðina og Víkurskóla. Í heimsókninni á heilsugæslustöðina nýtti Lionsklúbburinn Suðri tækifærið og færði sveitarfélaginu nýtt líkamsgreiningartæki að gjöf.

Forsetahjónin heimsóttu einnig skrifstofur Mýrdalshrepps og funduðu bæði með sveitarstjórn og einnig enskumælandi ráði sem skipað er fulltrúum íbúa í Mýrdalshreppi af erlendu bergi brotnu. Síðan héldu þau út í Dyrhólaey og heimsóttu listasmiðjuna í Garðakoti.

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn tóku svo á móti forsetahjónum í slökkvistöðinni í Vík. Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri afhenti þar Ívari Páli Bjartmarssyni slökkviliðsstjóra nýjan tækjabíl og forseti færði viðbragðsaðilum þakkir.

Þau heimsóttu auk þess Víkurkirkju, kaffivagninn Skoolbeans og brugghúsið Smiðjuna áður en sveitarstjórn bauð forsetahjónunum til kvöldverðar á Hótel Vík. Daginn eftir heimsóttu þau Icewear, leikskólann Mánaland, Kötlusetur og prjónastofuna Katla Wool.

Í lokin voru forsetahjónin svo heiðursgestir á árshátíðarsýningu Víkurskóla á leikritinu Emil í Kattholti og heimsókninni lauk svo með hátíðarsamkomu í íþróttahúsinu, þangað sem öllum íbúum sveitarfélagsins var boðið.

Myndir frá heimsókninni má sjá á heimasíðu forsetaembættisins.

Fyrri greinSelfoss fær mexíkóska landsliðskonu að láni
Næsta greinDrengurinn, fjöllin og Húsið