Guðmundur og Stefán ráðnir yfir framkvæmdasvið Landeldis

Stefán Sigurðsson og Guðmundur Þórðarson.

Guðmundur Þórðarson og Stefán Sigurðsson hafa verið ráðnir yfir framkvæmdasvið Landeldis hf. Guðmundur og Stefán koma frá Leonhard Nilsen & Sönner í Noregi, þar sem þeir hafa stýrt viðamiklum verkefnum á sviði jarðgangnagerðar síðastliðin ár. Þeir hefja báðir störf fyrir Landeldi hf. þann 1. janúar næstkomandi.

Guðmundur er húsasmíðameistari og byggingatæknifræðingur frá Horsens Ingeniörhöjskole í Danmörku. Hann hefur stýrt fjölda umfangsmikilla verkefna í gegnum tíðina sem eru mörg hver sérhæfð m.a. stækkun álverksmiðju ÍSAL, byggingu fóðurverksmiðju fyrir lax í Noregi, jarðgangnagerð, virkjanir á Íslandi og Grænlandi ásamt fjölda annarra verkefna.

Stefán er byggingaverkfræðingur frá Danmark Tekniske Universitet ásamt því að vera byggingatæknifræðingur og húsasmiður. Hann hefur einnig stýrt fjölda verkefna m.a. jarðgangagerð í Noregi, fiskvinnsluhús á Dalvík, útlögn á fráveitulögn frá landi og út í sjó við Grindavík og fjöldi annara verkefna.

„Við Stefán höfum fylgst með utanfrá hvernig Landeldi í Þorlákshöfn hefur þróast. Við höfum heillast af verkefninu, bæði stærð verkefnisins og jákvæðu þýðingu þess. Verkefnið er umfangsmikið og telur uppbyggingarsvæðið um 33 hektara í Þorlákshöfn. Við erum fullir tilhlökkunar og framundan eru mjög áhugaverðir og spennandi tímar,“ segir Guðmundur.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Landeldis hf, segir að reynsla Guðmundar og Stefáns muni verða Landeldi mikilvæg.

„Þeir búa yfir áratuga reynslu á verkstýringu stórra sérhæfðra- og flókinna verkefna. Reynsla þeirra og yfirgripsmikil þekking og stýring á stórum verkefnum verður okkur í Landeldi mikilvæg til að ná settum markmiðum. Landeldið í Þorlákshöfn stefnir á fulla uppbyggingu í 6 fösum til ársins 2028,“ segir Eggert.

Fyrri greinSveitarfélögin styrkja starf Jökuls
Næsta greinEva María og Aron Emil íþróttafólk Árborgar