Guðjón Ragnar skipaður skólameistari FAS

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað Guðjón Ragnar Jónasson í embætti skólameistara Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu til fimm ára frá 1. nóvember næstkomandi.

Guðjón Ragnar hefur verið framhaldsskólakennari við Menntaskólann í Reykjavík frá árinu 2009, ásamt því að vera fagstjóri og áður gæðastjóri. Hann hefur einnig starfað sem forstöðumaður við Háskólann á Bifröst.

Guðjón hefur auk þess gefið út og þýtt fjölda bóka, þar á meðal eru barnabækur, kennslubækur í íslensku og fræðibækur. Auk þess hefur hann ritað í tímarit og dagblöð um menntamál og byggt upp bókaforlagið Sæmund á Selfossi í samstarfi við Bjarna Harðarson og ritstýrt fjölda bóka í tengslum við það.

Guðjón Ragnar er með meistaragráðu í íslenskum fræðum, M.paed í kennslufræðum og B.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands auk diplómu í menntastjórnun og matsfræðum.

Alls sóttu átta um embættið.

Fyrri greinSelfoss fær þýskan markmann
Næsta greinEldri borgarar tóku fyrstu skóflustungu að næsta áfanga miðbæjarins