Guðbrandur vill leiða Viðreisn

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, gefur kost á sér til þess að leiða lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.

„Ég tel að reynsla mín eigi að geta nýst flokknum og hjálpað til við að ná þingsæti í kjördæminu á nýjan leik,“ segir Guðbrandur í tilkynningu.

„Ég hef unnið að sveitarstjórnarmálum í rúm 20 ár og gegni nú stöðu forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar ásamt því að sitja í bæjarráði sem ég hef gert mörg undanfarin ár.
Þá starfaði ég einnig sem formaður/framkvæmdastjóri Verslunarmannafélags Suðurnesja í rúm 20 ár, sem formaður Landssambands ísl. verslunarmanna í 6 ár þar sem ég sat í stjórn í tæp 20 ár. Þá tók ég einnig þátt í starfi Alþýðusambands Íslands um 14 ára skeið, bæði sem miðstjórnarmaður og sem fulltrúi sambandsins í ýmsum nefndum og ráðum.“

Guðbrandur segir að samfélagsmál í víðum skilningi þess orðs hafi verið sér hugleikin um árabil og hefur hann áhuga á því að vinna, á vettvangi Viðreisnar, að því að bæta samélagið, þar sem almannahagsmunir eru hafðir að leiðarljósi.

„Það er nauðsynlegt fyrir þjóðina að frjálslynd öfl á miðju stjórnmálanna nái árangri í næstu kosningum og fyrir því vil ég berjast,“ segir Guðbrandur.

Guðbrandur Einarsson er kvæntur Margréti Sumarliðadóttur, hársnyrtimeistara, og eiga þau fimm uppkomin börn.

Fyrri greinVerktækni bauð lægst í nýtt hringtorg
Næsta greinSektaður fyrir of þungan farm