Guðbrandur leiðir lista Viðreisnar

Guðbrandur Einarsson. Ljósmynd/Aðsend

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og fyrrum formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja mun leiða lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.

„Ég vil vinna að breytingum sem leiða til jafnræðis, aukins frelsis og meiri virðingar fyrir fjölbreytni mannlífsins,“ segir Guðbrandur. „Í rúma tvo áratugi hef ég tekið þátt í réttindabaráttu launafólks og unnið að bættum hag samfélagsins míns með þátttöku í sveitarstjórnarmálum. Það er vegferð sem ég vil halda áfram á þingi. Þar er mikilvægast að styðja við og styrkja það nauðsynlega öryggisnet sem þarf að vera til staðar í Suðurkjördæmi.“

Guðbrandur hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri Verslunarmannafélags Suðurnesja, verslunarstjóri Kaskó í Keflavík og framkvæmdastjóri Nýs miðils, sem rak útvarpsstöðina Brosið og vikublaðið Suðurnesjafréttir. Hann hefur um árabil verið bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og er nú forseti bæjarstjórnar. Hann var í rúm 20 ár formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, sat í stjórn Landssambands íslenskra verslunarmanna og var formaður sambandsins í sex ár. Þá hefur hann einnig tekið að sér ýmis trúnaðarstörf fyrir ASÍ og sat m.a. í miðstjórn sambandsins í 14 ár.

Í tilkynningu frá Viðreisn segir að uppstillingarnefnd sé enn að störfum og verður heildarlisti kynntur síðar.

Fyrri greinÁströlsk landsliðskona í Selfoss
Næsta grein37 milljónum króna úthlutað til atvinnuþróunar- og menningarverkefna