Guðjón fékk tíunda Uppsveitabrosið

Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fékk Uppsveitabrosið 2013 en viðurkenningin var afhent í tíunda sinn á dögunum.

Í fréttatilkynningu segir að einstaklega góð samvinna sé milli Uppsveita Árnessýslu og starfsfólks Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í því samstarfi hefur Guðjón Bragason komið að fjölmörgum verkefnum í mismunandi málaflokkum þar með talið skipulags- og ferðamálum.

Uppsveitabrosið er viðurkenning sem veitt er árlega einstaklingi eða fyrirtæki. Bros frá uppsveitunum til þeirra sem hafa lagt ferðaþjónustunni á svæðinu lið á jákvæðan uppbyggilegan hátt og stuðlað að samvinnu. Markmiðið er að senda út jákvæð skilaboð og vekja athygli á því sem vel er gert. Hugmyndin að Uppsveitabrosinu kviknaði í stefnumótunarvinnu sem fram fór 2003 og hefur verið afhent árlega síðan.

Brosið er óáþreifanlegt, en því fylgir ávallt hlutur sem handverks- eða listamaður í Uppsveitunum býr til hverju sinni. Í ár var það ljósmynd „Sólstafir“ eftir Ívar Sæland ljósmyndara frá Espiflöt.

Oddvitanefnd Uppsveita Árnessýslu ásamt ferðamálafulltrúa sveitarfélaganna fóru í heimsókn til Sambands íslenskra sveitarfélaga, áttu þar góða stund og samræður ásamt því að afhenda brosið.

Fyrri greinPrjóna, spila bridds, skoða blöðin og spjalla saman
Næsta greinJón Kjötmeistari Íslands 2014