Guðfinna kjörin formaður BÍL

Guðfinna Gunnarsdóttir, Leikfélagi Selfoss, var kjörin formaður Bandalags íslenskra leikfélaga (BÍL) á aðalfundi bandalagsins sem haldinn var að Melum í Hörgársveit um síðustu helgi.

Guðfinna hefur lengi setið í stjórn BÍL, byrjaði í varastjórn árið 2006 og hefur setið í stjórn síðan. Þorgeir Tryggvason sem hafði setið sem formaður í fjögur kjörtímabil gaf ekki kost á sér áfram. Í aðalstjórn voru einnig kjörin Gísli Björn Heimisson og Ólöf Þórðardóttir. Áfram sitja Þráinn Sigvaldason og Bernharð Arnarson.

„Ég bauð mig fram til formanns vegna þess að ég hef áhuga á starfsemi áhugaleikfélaga um land allt og fólkinu sem deilir með mér þeim áhuga. Ég veit hversu mikilvægu og víðtæku hlutverki starfsemi áhugaleikfélaga gegnir og langar að leggja hönd á plóg við að styðja hana og styrkja,“ sagði Guðfinna í samtali við sunnlenska.is.

BÍL er samtök áhugaleikfélaga á Íslandi og voru þau stofnuð árið 1950. Í samtökunum eru 60 leikfélög sem starfa vítt og breitt um landið. Fjöldi einstaklinga í félögunum er um það bil 4.000 talsins.

Guðfinna segir að það sem helst sé framundan hjá stjórninni séu viðræður við mennta- og menningarmálaráðuneytið um aukin framlög til starfseminnar. „En einnig að úthluta verkefnastyrkjum til félaganna og skipuleggja starf Bandalagsins næsta vetur. Svo er ég að fara í leiklistarskóla Bandalagsins að Húnavöllum í byrjun júní á námskeið í spunaleik,“ segir Guðfinna að lokum.

Nánar er hægt að kynnast starfsemi BÍL á nýuppfærðum vef bandalagsins, leiklist.is.

Fyrri greinM2 Teiknistofa á Stað
Næsta grein„Eina markmið dagsins var að sigra“