Guðrún tekur við formennsku í NKF

Alls tóku 110 norrænar konur þátt í Norrænu sumarþingi kvenfélaga innan Nordens Kvinnoförbund, NKF, sem haldið var í Vestmannaeyjum á dögunum.

Eyjarnar allar og hafið umhverfis voru vettvangur fundarins en hefðbundin fundastörf og fyrirlestrar fóru fram í AKÓGES salnum.

Á þinginu tók Guðrún Þórðardóttir forseti KÍ við formennsku í Nordens Kvinnoförbund, NKF, til næstu fjögurra ára. Guðrún bjó lengst af á Svínavatni en er nú búsett á Selfossi og er í Kvenfélagi Grímsneshrepps. Formennskan í NKF skiptist á milli Norðurlandanna og síðast þegar Ísland hafði formennsku var Drífa Hjartardóttir á Keldum formaður.

Fjölmargir áhugaverðir fyrirlestrar voru fluttir á þinginu, tengdir þema þingsins „Lifað í sátt við náttúruna“.

Meðal annars flutti Guðbjörg Ósk Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Líknar, erindi um það þegar hún flutti með fjölskyldu sína, fyrirvaralust, frá Eyjum þegar eldgos hófst í Heymaey 23. janúar 1973 og sagði frá tímunum meðan fjölskyldan flutti milli staða og bjó m.a. í hjólhýsi hluta þess tíma sem hún dvaldi uppi á landi.

Þingið samþykkti ályktun um aðstæður fæðandi kvenna á landsbyggðinni þar sem meðal annars segir að það sé óásættanlegt að konur þurfi að dvelja langdvölum fjarri heimilum sínum meðan þær bíða fæðingar eða séu sendar milli sjúkrastofnanna, þannig að börn þeirra fæðist jafnvel í misjöfnum veðrum úti á þjóðvegum. Slíkt er bæði áhættusamt og óöruggt fyrir konur og ófædd börn þeirra.

Norræn þing kvenfélaga eru haldin á hverju sumri, til skiptis á norðurlöndunum og skiptast kvenfélagasambönd landanna um að framkvæmd og skipulagningu þinganna. Markmiðið með þingunum er að efla kynni og miðla reynslu meðal kvenfélagskvenna á norðurlöndunum auk þess að taka ákvarðanir fyrir félagsheildina.

Á myndinni sem fylgir fréttinni eru Laufey Guðmundsdóttir formaður Kvenfélags Grímsnesshrepps, Edda Ólafsdóttir formaður Kvenfélagsins Líknar í Vestmannaeyjum, Drífa Hjartardóttir fyrverandi forseti Kvenfélagasambands Íslands og fyrrverandi formaður Nordens Kvinnoförbund, Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands og nýr formaður Nordens Kvinnoförbund og Elinborg Sigurðardóttir formaður Sambands sunnlenskra kvenna.