Guðmundur hættur í bæjarstjórn

Guðmundur Þór Guðjónsson, bæjarfulltrúi D-listans í Hveragerði, er hættur í bæjarstjórn Hveragerðis af persónulegum ástæðum.

Í færslu á Facebooksíðu sinni segir Guðmundur að hann hafi lagt inn bréf þess efnis að hann óski eftir lausn frá störfum í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar til loka kjörtímabilsins. Auk þess að sitja í bæjarstjórn hefur Guðmundur einnig átt sæti í bæjarráði.

„Þetta geri ég af persónulegum ástæðum. Ég hef starfað í bæjarstjórn í næstum átta ár og tekið þátt í mikilli uppbyggingu bæjarfélagsins og haft gaman af. Ég vil á þessum tímamótum þakka bæjarbúum fyrir samstarfið í því að gera góðan bæ enn betri,“ segir Guðmundur.

Elínborg Ólafsdóttir er 1. varafulltrúi D-listans í Hveragerði og mun því væntanlega taka sæti Guðmundar.

Fyrri greinHrækti á lögreglumann og sparkaði í annan
Næsta greinHugðist skipta á þýfinu og fíkniefnum