Guðjón Bjarni stýrir Sumar á Selfossi

Guðjón Bjarni Hálfdánarson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra bæjar- og fjölskylduhátíðarinnar Sumar á Selfossi.

Knattspyrnufélag Árborgar hefur séð um hátíðina undanfarin 11 ár með miklum myndarskap í samstarfi við sveitarfélagið og fyrirtæki á Selfossi.

Guðjón Bjarni tekur við kyndlinum af Adólfi Ingva Bragasyni sem hefur stýrt hátíðinni undanfarin þrjú ár fyri hönd knattspyrnufélagsins.

„Við erum mjög þéttur hópur sem höfum staðið að þessari hátíð undanfarin ár. Það er kominn flottur kjarni innan Knattspyrnufélags Árborgar sem mun stýra hátíðinni í ár undir forystu Guðjóns Bjarna. Undanfarin þrjú ár hafa verið ótrúlega skemmtileg og gefandi. Við ákváðum stækka hátíðina í fimm daga fjölskyldufestival með mjög fjölbreyttri dagskrá. Þrátt fyrir ákveðnar fjármagnsþrengingar í samfélaginu hefur okkur tekist að búa til frábæra stemmningu í okkar ástkæra samfélagi, í góðu samstarfi við Sveitarfélagið Árborg, og það er gaman að sjá hversu vel bæjarbúar hafa tekið þátt í hátíðarhöldunum,“ segir Adólf.

Guðjón Bjarni segir að undirbúningur fyrir hátíðina í ár sé á lokastigi. „Við erum búnir að vera að klára samninga við okkar helstu styrktaraðila. Dagskrá hátíðarinnar er nánast klár og við stefnum á mjög glæsilega Sumar á Selfossi hátíð 5.-9. ágúst. Stóru viðburðirnir verða eins og undanfarin ár, stórtónleikar á föstudagskvöldinu í hátíðartjaldinu, morgunverður á laugardegi, barnadagskrá og síðan kvöldvaka, brekkusöngur og flugeldasýning. Nú þurfa bæjarbúar að fara að tína til skreytingardótið í litum hverfana því það styttist óðum í hátíðina,“ segir Guðjón Bjarni með bros á vör.

Fyrri greinVance Hall til liðs við Þór
Næsta greinGæðadjass í Versölum