Guðbjörg Viðja sigraði í Vík

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Leikskálum í Vík í Mýrdal í gær. Guðbjörg Viðja Antonsdóttir úr Laugalandsskóla sigraði í keppninni.

Í Vík kepptu fulltrúar Víkurskóla, Kirkjubæjarskóla, Grunnskóla Vestmannaeyja, Hvolsskóla, Grunnskólans á Hellu og Laugalandsskóla í upplestri.

Keppnin er þríþætt: (1) keppendur lesa kafla úr skáldsögu, að þessu sinni Draugaslóð eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, (2) keppendur lesa ljóð eftir skáld keppninnar sem að þessu sinni var Gyrðir Elíasson og (3) keppendur lesa ljóð að eigin vali.

Sem fyrr segir sigraði Guðbjörg Viðja, í 2. sæti varð Bjarnveig Björk Birkisdóttir úr Grunnskólanum á Hellu og þriðji Dagur Ágústsson úr Hvolsskóla.

Allir keppendur á lokahátíðinni fengu sérútgefna bók með ljóðum Gyrðis Elíassonar frá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Sigurvegararnir þrír fengu gjafabréf frá bókaverslunum Eymundsson.

Á meðfylgjandi mynd eru sigurvegarnir ásamt kennurum sínum. F.v. Sigríður Theodóra Kristinsdóttir kennari í Grunnskólanum á Hellu, Bjarnveig Björk Birkisdóttir úr Grunnskólanum á Hellu sem lenti í 2. sæti, Guðbjörg Viðja Antonsdóttir úr Laugalandsskóla sem lenti í 1. sæti, Kolbrún Sigþórsdóttir aðstoðarskólastjóri í Laugalandsskóla, en hún hefur þjálfað nemendur í Laugalandsskóla í 10 ár og átt sigurvegara í 1. sæti öll árin, Dagur Ágústsson úr Hvolsskóla sem lenti í 3. sæti og kennari hans Anna Kristín Guðjónsdóttir.

Næsta lokahátíð á Suðurlandi verður í Vallaskóla 13. mars, en þar leiða saman hesta sína Vallaskóli, Sunnulækjarskóli, Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri, Grunnskólinn í Hveragerði og Grunnskóli Þorlákshafnar.