GTS bætir við sig tíu rafmagnsrútum

Hjalti Sigmundsson framkvæmdastjóri YES-EU ehf. og Tyrfingur Guðmundsson framkvæmdastjóri GTS ehf. við undirritun samningsins. Ljósmynd/Aðsend

GTS ehf á Selfossi hefur undirritað samning við YES-EU ehf um kaup á tíu nýjum rafmagnsrútum. Um er að ræða kaup á þremur mismunandi tegundum af Yutong rútum sem notaðar verða bæði í föst verkefni á vegum GTS ehf og einnig í stakar hópferðir.

Samningurinn er sá stærsti sem YES-EU og GTS ehf hafa gert til þessa og er stórt skref í orkuskiptum á Íslandi.

GTS ehf hefur frá árinu 2008 keypt Yutong rútur af YES-EU. Í upphafi var um díselrútur að ræða en árið 2014 keypti félagið fyrsta rafmagnsvagninn til Íslands. Með honum var stigið sögulegt skref því hann var fyrsti rafmagnsvagninn sem kom til landsins, og einnig sá fyrsti sinnar tegundar sem kom til Evrópu. Sá bíll er enn í fullum akstri og hefur að sögn Tyrfings Guðmundssonar, framkvæmdstjóra GTS, reynst afskaplega vel eins og allar þær rútur sem félagið hefur verið með í rekstri frá Yutong.

Yutong er stærsti rútu- og strætisvagnaframleiðandi í heimi og framleiddi 47.000 hópferðabíla í fyrra þar sem þriðjungur þeirra var rafknúin.

YES-EU hefur unnið með Yutong á Norðurlöndum síðan 2008 og hefur félagið selt þangað yfir 2.000 rafmagnsvagna og -rútur. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þessi nýja viðbót til Íslands verði kærkomið innlegg í orkuskipti hér á landi og stórt skref í áætlun GTS ehf um að skipta öllum flota sínum yfir í rafmagn fyrir árið 2030. GTS fjárfesti í fyrra í 1.440 kw hleðslustöð við aðstöðu sína á Suðurlandi.

Fyrri greinJökulhlaup í Leirá-Syðri og Skálm
Næsta greinBlóð, sviti og tár í nágrannaslagnum