GT flytur inn kínverska rafbíla

Í gær var undirritaður samningur á milli GT Group á Selfossi og Foton International í Peking um sölu kínverskra rafmagnsbíla til Íslands.

Um er að ræða bæði fjölskyldubíla og minni sendibíla en vonir eru bundnar við það að þessi samningur verði til þess að rafmagnsbílar verði raunverulegur valkostur á Íslandi.

Samningurinn var undirritaður í sendiráði Íslands í Peking.

Að sögn Benedikts Guðmundssonar, framkvæmdastjóra GT Group, felast mikil tækifæri í þessum samningi, og sé litið til framtíðar standa vonir til að samningurinn muni skapa nokkra tugi starfa á Íslandi.

Ísland er fyrsta landið í norðanveðri Evrópu sem Foton velur fyrir rafmagnsbíla, en fyrirtækið er leiðandi bifreiðaframleiðandi í Kína.

GT Group á Selfossi á meðal annars Yutong Eurobus ehf. sem þegar hefur flutt á annan tug hópferðabíla til Íslands auk þess sem fyrstu bílarnir til Noregs verða afhentir í lok þessa mánaðar.

foton_rafbill_540621260.jpg
Rafmagnsbíll frá Foton.