Grýla mætt á Selfoss

Það fór vel á með Eriku og Grýlu í dag. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Það eru kannski ennþá 194 dagar til jóla en Grýla er mætt á Selfoss í öllu sínu veldi.

Skömmu eftir hádegi í dag læddist móðir jólasveinanna út úr verslun Pennans-Eymundsson í Austurgarði á Selfossi og stillti sér upp fyrir framan verslunina, þar sem hún tók á móti fólki eins hlýlega og hún gat.

Nokkrir dagar eru síðan Grýla mætti í Pennann en hún hætti sér þó ekki út fyrr sólin fór að skína eftir hádegi í dag. Þrátt fyrir að vera tröllkona þá hræðist hún ekki sólarljósið.

„Hún vildi ekki fara út í rokinu, þar sem henni finnst óþægilegt að standa úti í roki. Hún fer svo aftur inn þegar verslunin lokar og sefur inni,“ segir Erika Leue, verslunarstjóri Pennans á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Sigurdór Örn Guðmundsson og Guðrún Nanna Sölvadóttir voru ekki smeyk við Grýlu þrátt fyrir að hún væri heldur ófrýnileg að sjá. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Erika segir að börn þurfi ekki að hræðast Grýlu þar sem hún er orðin svo gömul og er hálf meinlaus. Henni er þó afar illa við að láta snerta sig og aldrei að vita hverju hún gæti tekið upp á ef fólk virðir það ekki.

Að sögn Eriku kemur þessi Grýla beint úr Kerlingarfjöllum en einnig hefur frést af Grýlu fyrir utan verslun Pennans á Akureyri. Leppalúði, eiginmaður Grýlu, stendur svo keikur í Flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli.

Fyrri greinBúið að opna Suðurlandsveg
Næsta greinStöngin inn hjá Árborg – Hamar tapaði sjötta leiknum