Grunur um að eitrað hafi verið fyrir dýrum í Hveragerði

Um helgina hafa minnst fjórir kettir í Hveragerði drepist og leikur grunur á því að eitrað hafi verið fyrir þeim. Hundur í bænum sýnir sömu einkenni og óvenju margir fuglar hafa fundist dauðir.

Vísir.is greinir frá þessu og ræðir við Aðalstein Magnússon, eiganda eins kattanna. „Ég fór með hann til dýralæknis og hann var greindur með lungnabólgu. Svo frétti ég það í gær að það hefði fundist blátt fiskflak hjá húsi beint á móti mér og að fleiri kettir væru lasnir,“ segir Aðalsteinn í samtali við Vísi.

Vísir segir útlit fyrir að íbúi í bænum hafi dreift fiskflökum sem höfðu legið í frostlegi um bæinn. Að sögn Aðalsteins er einnig óvenju mikið magn dauðra fugla í görðum og á götum Hveragerðis í dag.

Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.