Grunuðum brennuvargi sleppt úr haldi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í gær felldi Landsréttur úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir konu sem grunuð er um ítrekaðar íkveikjur á Selfossi síðustu vikur.

Konan er sökuð um sex íkveikjur á fjórum vikum, í fjölbýlishúsi og verslunum en rannsókn lögreglu stendur enn yfir. Þegar konan var handtekin þann 15. október fundust tveir kveikjarar og hnífar í fórum hennar.

Í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands segir að grunur lögreglu hafi beinst snemma að konunni en hún býr í fjölbýlishúsinu ásamt fjölskyldu sinni. Hún var stödd nærri heimili sínu í öll þau skipti sem eldur kom þar upp og fylgdist jafnvel með slökkvistarfinu. Rannsókn leiddi í ljós að hún var stödd í báðum verslununum um það leyti sem eldur kviknaði þar. Raunar liggur fyrir myndbandsupptaka sem virðist sýna konuna kveikja eld inni í hillurekka í annarri versluninni. Við yfirheyrslur hjá lögreglu hefur konan alfarið neitað sök í málinu.

Í kröfu lögreglustjórans um gæsluvarðhald segir að brot konunnar séu talin mjög alvarleg enda sé hún grunuð um íkveikju í fjölbýlishúsi, þar sem hætta var á að eldur breiddist út til 22 íbúða þar sem 56 einstaklingar eiga lögheimili. Íbúar hússins hafi verið mjög áhyggjufullir og óttaslegnir vegna málsins og ekki talið sig örugga á heimili sínu. Íkveikjurnar í verslununum hafi verið um hábjartan dag þegar verslanirnar hafi verið opnar almenningi og þannig hafi hún sett marga einstaklinga í hættu.

Að mati lögreglustjórans var gæsluvarðhald nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi brot konunnar, enda virðist hún hvergi nærri hætt að brjóta af sér. Lögreglan fékk tilkynningar um íkveikjur 13., 14. og 15. október. Konan hafi verið í haldi lögreglu 15. til 16. október en eftir að hún var látin laus þann sextánda hafi borist ný tilkynning og var hún því handtekin aftur. Að mati lögreglu telst konan hættuleg umhverfi sínu og brot hennar þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings að hún gangi laus á meðan mál hennar sé til meðferðar.

Sem fyrr segir hefur konan neitað sök í málinu en Héraðsdómur tekur undir með lögreglu að framburður hennar sé misvísandi og ótrúverðugur. Héraðsdómur hafði dæmt konuna í gæsluvarðhald til 24. október en Landsréttur taldi ekki næg efni til að verða við þeirri kröfu og var konunni því sleppt úr haldi.

Fyrri grein„Snýst um svo miklu meira en bara að safna nammi“
Næsta greinFanga­vörður rekinn fyrir að stela frá fanga