Grunsemdir beinast að fyrri eigendum

Að sögn Jóns Hlöðvers Hrafns­sonar, rann­sóknar­lögreglu­manns á Selfossi, færist það í vöxt að lögreglan þurfi að rannsaka óútskýrða tæmingu á húsum á svæðinu.

Oft tengist það því að eigendur hafi misst forræði á húsunum og eignirnar farið í uppboðs­meðferð. Í kjölfarið hefur borið á því að naglfastir hlutir hafi horfið án þess að bein merki séu um innbrot, segir Jón Hlöðver.

Nýlega var tilkynnt var um þjófnað á öllum innréttingum og hreinlætistækjum úr húsi í Tjarnabyggð sem er á milli Eyrarbakka og Selfoss. Húsið hafði verið selt á uppboði fyrr í mánuðinum. Vitað er að allt það sem saknað er var í húsinu í byrjun september síðastliðn­um segir í tilkynningu lögreglu. Engar vísbendingar eru um hver hafi fjarlægt innréttingarnar og er málið í rannsókn og hefur lögreglan beðið þá sem geta að veita upplýsingar.

Að sögn Jóns er þetta nokkuð dæmigerð aðkoma og þá fari vinna lögreglunar meðal annars í það að skoða hverjir hafi lyklavöld að húsunum og eru þá fyrri eigendur þar á lista. Hann sagðist ekki treysta sér til að segja til um það að hverjum grunsemdir beinist í því tilviki sem var nefnt hér að framan.

,,Það getur verið úr vöndu að ráða þegar svona tilvik koma upp en þetta er bókað sem eignaspjöll og þjófnaður hjá okkur og við rannsökum það sem slíkt,“ sagði Jón. Hann staðfesti að lögreglan væri að rannsaka mál í Hveragerði þar sem húsnæði fyrirtækis var tæmt eftir að það fór í þrot.

Fyrri greinUngmennaráð skipað í Hveragerðisbæ
Næsta greinÍslandsmót á Selfossi næsta sumar