Grunnskólar Árborgar bæta sig í PISA

Framfarir eru í námsárangri 15 ára nemenda í grunnskólum Árborgar milli PISA kannana sem gerðar voru árin 2012 og 2015.

„Það er afar ánægjulegt að sjá miklar framfarir í námsárangri nemenda í Árborg. Þessar niðurstöður hljóta að vera vísbending um að styrking faglegrar umgjarðar skólastarfs sem og nýjar áherslur í skólum og skólaþjónustu Árborgar síðastliðin 3-4 ár eru að skila árangri,“ segir Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri Árborgar.

Þróunin hefur verið niður á við á landsvísu en Árborg, Hafnarfjörður og Reykjanesbær sýna framfarir á milli kannana.

Í Árborg hækkar lesskilningur úr 458 PISA stigum í 480 PISA stig, sem er marktæk breyting. Læsi á stærðfræði eykst úr 461 stigi í 485 stig í Árborg en breytingin er það lítil að hún mælist ekki marktæk. Í náttúrufræði eykst læsi mjög mikið í Árborg, úr 448 stigum í 466.

PISA er umfangsmikil alþjóðleg langtímarannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúrufræði og stærðfræði. Sá aldur er valinn þar sem hann markar lok almennrar skólagöngu í flestum löndum.

Niðurstöður benda til þess að frammistaða íslenskra nemenda sé lakari en árið 2012 þegar rannsóknin var gerð síðast. Læsi íslenskra nemenda á náttúruvísindi hefur hrakað mikið á síðastliðnum áratug. Læsi á stærðfræði hefur einnig hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið árið 2003. Lesskilningur minnkaði frá 2000 til 2006 en eftir það hefur hann ekki lækkað marktækt.

Fyrri greinEgill vann brons í Hollandi
Næsta greinGöngustígum lokað við Skógafoss