Grunnskólanemar fá átta rafbækur að gjöf

Í dag fá grunnskólanemar að gjöf átta rafbækur eftir Þorgrím Þráinsson sem þeim er frjálst að sækja og lesa eins og þá listir.

Á bak við bókagjöfina standa Þorgrímur Þráinsson og aðstandendur rafbókaveitunnar emma.is sem vilja með þessu hvetja krakka og unglinga til aukins yndislesturs. Nýlegar kannanir sýna að krakkar og ungt fólk lesa sjaldnar en áður. Margt annað er meira freistandi en að taka sér bók í hönd er og sú staðreynd var upphaf þessa samstarfs; Þorgríms Þráinssonar og emma.is.

Starfmenn Emmu hafa unnið að því í sumar að færa eldri bækur Þorgríms Þráinssonar á stafrænt form og gera úr þeim rafbækur sem hægt er að lesa á öllum lestækjum og tölvum svo sem iPad, iPod touch, Kindle, snjallsímum með Android eða Windows, PC tölvum eða Mac. Bækurnar sem Emma og Þorgrímur gefa eru:

– Með fiðring í tánum (frá 1998),
– Bak við bláu augun (1992),
– Lalli ljósastaur (1992),
– Spor í myrkri (1993),
– Sex augnablik (1995),
– Svalasta 7an (2003),
– Undir 4 augu (2004)
– Litla rauða músins (2008).

Það er von Þorgríms og aðstandenda Emmu að þessi veglega bókagjöf hvetji grunnskólanemendur til þess að lesa meira og nýta sér nýja tækni til lestursins. Bækurnar er hægt að sækja á emma.is frítt skólaárið 2012-2013.

Skólayfirvöld, foreldrar og síðast en ekki síst krakkar eru hvattir til þess að nýta sér þetta einstaka tækifæri – og hlaða bókunum niður og lesa þær aftur og aftur.