Grundvallaratriði að kippa ekki fótum undan starfsmenntanáminu

Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi. Ljósmynd/LbhÍ

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar skorar á stjórnvöld að tryggja framtíð starfsmenntanáms garðyrkjunnar á Íslandi.

Í ályktun sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar í gær segir að á tímum þar sem áhersla er lögð á að hefja iðn- og starfsmenntanám til vegs og virðingar, áhersla lögð á fæðuöryggi þjóðarinnar, aðgerðir í loftslagsmálum og byggðaþróun verði ekki við það unað að staða starfsmenntanáms garðyrkjunnar sé í þeirri óvissu stöðu sem nú er raunin.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur rétt að aðskilja námið frá Landbúnaðarháskóla Íslands og tryggja framtíð þess á öðrum forsendum, svo sem með tengslum við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

„Mikilvægt er að starfsmenntanáminu sé tryggð örugg aðstaða í húseignum á Reykjum, enda verður ekki hægt að kenna garðyrkju nema hafa húsakost og svæði til ræktunar. Jafnframt þarf að tryggja að námið verði áfram aðgengilegt fyrir nemendur á ólíkum aldri, en algengt hefur verið að fólk sé komið af hefðbundnum framhaldsskólaaldri þegar það sækir sér menntun á þessu sviði,“ segir í ályktuninni en sveitarstjórn telur jákvætt að jafnframt verði lögð stund á nýsköpun og rannsóknir í garðyrkju á Reykjum, eftir því sem húsrúm og aðstaða leyfir.

„Það, sem slíkt nýsköpunarstarf leiðir fram, þarf þó á því að halda að fólk með menntun og þekkingu á sviði garðyrkju verði til staðar til að vinna með niðurstöður. Grundvallaratriði er að kippa ekki fótunum undan starfsmenntanáminu og þarf það að hafa tryggan forgang að því húsnæði sem nauðsynlegt er samkvæmt þarfagreiningu, en aðra hluta húsnæðisins væri hægt að nýta fyrir aðstöðu til rannsókna á Reykjum. Um er að ræða menntun sex atvinnugreina sem allar eru mikilvægar,“ segir ennfremur í ályktuninni.

Í Bláskógabyggð hefur átt sér stað mikil uppbygging á sviði garðyrkju, meðal annars voru 9.000 fermetrar gróðurhúsa reistir á síðasta ári. Þá eru margar eldri garðyrkjustöðvar að ganga í gegnum endurnýjun og unnið er að ýmiskonar nýsköpun.

„Rímar þetta vel við stefnu stjórnvalda um að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% árið 2023 til að auka markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu. Öll þessi starfsemi þarf á að halda starfsfólki sem kann til verka og er nauðsynlegt að viðhalda fagmennsku í þessum greinum. Því er brýnt að tryggja það að áfram verði boðið upp á metnaðarfullt garðyrkjunám, jafnframt því sem unnið er að nýsköpun í greininni,“ segir að lokum í ályktuninni.

Fyrri greinHjólhestaspyrna Magnúsar tryggði sigurinn
Næsta greinÁstand Suðurstrandarvegar heldur verra