Grund og Ás stefna ríkinu vegna vangoldinnar leigu

Grund hjúkrunarheimili í Reykjavík og Dvalar og hjúkrunarheimilið Ás í Hveragerði hafa birt heilbrigðisráðherra, Óttarri Proppé, fyrir hönd ríkisins, stefnu fyrir héraðsdómi Reykjavíkur vegna vangoldinnar leigu fyrir afnot af húsnæði heimilanna.

Grund verður síðar í þessum mánuði 95 ára og í sumar varð Ás 65 ára og eru hjúkrunarrými þar um 300 talsins. Grund og Ás eru sjálfseignarstofnanir og en heimilin voru rekin með greiðsluþátttöku íbúa allt þar til að ríkið tók yfir málaflokkinn á níunda áratug síðustu aldar. Á þeim tíma hóf ríkið að ákveða einhliða hvaða öldruðu einstaklingar uppfylltu skilyrði til búsetu á hjúkrunarheimilum landsins og fengu Grund og Ás greidd daggjöld frá ríkinu.

„Þrátt fyrir þessa einhliða breytingu af hálfu ríkisvaldsins hefur ríkið ávallt hafnað því að greiða Grund endurgjald fyrir að leggja ríkinu til húsnæði undir rekstur hjúkrunarheimila í Reykjavík og Hveragerði. Í stefnunni er krafist eðlilegs gjalds fyrir afnotin,“ segir í tilkynningunni.

„Með öðrum orðum: Ríkið nýtir sér húsnæði Grundar í Reykjavík og Áss í Hveragerði án þess að greiða krónu fyrir afnot sín af húsnæðinu á sama tíma og ríkið greiðir fyrir afnot sín af húsnæði t.d. Markar hjúkrunarheimilis sem Grund hefur um sjö ára skeið rekið. Það er mat Grundar að þessi staðreynd feli í sér alvarlega og ólögmæta mismunun sem nauðsynlegt er að fá skorið úr fyrir dómstólum.“

Í tilkynningunni frá Grund segir að óbreytt ástand muni leiða til rekstrarerfiðleika og versnandi ástands húsnæðisins vegna vangetu til að fjármagna viðhald þess og þróun.

„Það er því mikilvægt að fá skorið úr málinu fyrir dómstólum til að unnt sé að taka frekari ákvarðanir um framtíð fasteignanna. Takist ekki að semja um greiðslu fyrir afnotin eða fallist dómstóllinn ekki málavexti Grundar og Áss gæti þrautarlendingin orðið sú að hætta núverandi rekstri hjúkrunarrýma í húsnæðinu og hefja þar aðra starfsemi í þágu aldraðra, t.d. með því að breyta húsnæðinu í leiguíbúðir. Verði málalokin þau mun ríkið þurfa að finna annað húsnæði til afnota fyrir þá starfsemi.“

„Stjórn Grundar harmar að málið sé komið í þennan farveg. Eftir árangurslausar tilraunir í mörg ár til að fá viðræður við ríkið um ágreininginn reynist nauðsynlegt að höfða dómsmál til að fá skorið úr málinu. Rétt er að geta þess að Hrafnistuheimilin munu samhliða reka sambærilegt dómsmál á hendur ríkinu vegna sinna eigna,“ segir að lokum í tilkynningunni frá Grund og Ási.

Fyrri greinListrými – Myndlist fyrir alla
Næsta greinLítið skorað í síðari hálfleik