Grunaður um ölvunarakstur

Ökumaður sem velti bíl sínum á milli Hólms og Nýjabæjar, vestan við Kirkjubæjarklaustur, síðdegis er grunaður um ölvunarakstur. Hann var fluttur á sjúkrahús með þyrlu, bíllinn er gjörónýtur.

Maðurinn var einn á ferð og engin vitni voru að bílslysinu. Að sögn lögreglu var vettvangur slyssins um 200 metra langur, frá því að hann missti stjórn á bílnum á veginum þar til hann endaði utan vegar, um 20 metra frá veginum. Ökumaðurinn hafði skömmu áður tekið fram úr bíl og lýsti bílstjóri þess bíls að maðurinn hafi ekið á mikilli ferð.

Ökumaðurinn var meðvitundarlaus þegar að var komið en komst síðan til meðvitundar. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til og lagði hún af stað úr Reykjavík laust eftir klukkan 17:00 og var komin austur á slysstaðinn fyrir klukkan 18:00. Hún lenti í Reykjavík með hinn slasaða laust eftir kl. 19:30.

Bíllinn gjöreyðilagðist í veltunni og gekk þakið á honum alveg niður að sögn lögreglu.

Fyrri greinEnn of grunnt í Landeyjahöfn
Næsta grein„Við vorum miklu betri”