Grunaður um á þriðja tug brota

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð til 25. nóvember yfir karlmanni sem grunaður er um tuttugu og fjögur þjófnaðarbrot og eignaspjöll.

Lögreglan á Selfossi handtók manninn ásamt öðrum manni föstudagskvöldið 28. október í heimahúsi í Þorlákshöfn í tengslum við rannsókn lögreglu á innbroti í Hafið bláa á föstudagsmorgun. Þar var stolið miklu magni af áfengi en töluvert magn af áfengi fannst við húsleit í íbúðinni.

Maðurinn hefur margsinnis komið við sögu lögreglu og nú eru til rannsóknar tuttugu og fjögur mál þar sem hann sé grunaður um aðild að ýmiskonar þjófnaðarbrotum og eignaspjöllum.

Fjögur þessara mála séu til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á Selfossi, en annars séu málin dreifð um landið, m.a. á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og á Vesturlandi.