Grunaður þjófur beint í fangelsi

Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningu um þjófnað úr versluninni á Geysi í Haukadal um kl. 17 í gær. Á þeim tíma var ekki tiltækur mannskapur hjá lögreglunni á Selfossi til að sinna verkefninu en lögreglumenn frá sérsveit ríkislögreglustjóra fóru á vettvang og handtóku manninn og færðu í fangageymslu á Selfossi.

Hann hafði stolið fatnaði að verðmæti um 400.000 kr.

Við athugun kom í ljós að maðurinn var á reynslulausn vegna fyrri þjófnaðarbrota. Hann var færður fyrir dómara í morgun sem úrskurðaði um að hann skyldi afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingarinnar, 180 daga og hefur hann nú verið fluttur til afplánunar í hegningarhúsið í Reykjavík, innan við sólarhring frá því að lögreglu barst tilkynning um brotið.

Fyrri greinBirtingur besta nautið
Næsta greinHarður árekstur í Hveradölum