Gröfuþjónustan Hvolsvelli ehf og Smávélar ehf á Selfossi áttu lægsta tilboðið í gatnagerð norðan byggðar á Hvolsvelli sem boðin var út á dögunum.
Tilboð Gröfuþjónustu Hvolsvallar og Smávéla hljóðaði upp á 92,8 milljónir króna. Spesían ehf bauð 97,4 milljónir króna og Aðalleið ehf 98,2 milljónir króna.
Öll tilboðin voru undir kostnaðaráætlun hönnuða sem hljóðaði upp á 103,7 milljónir króna. Verkfræðistofan Efla mun yfirfara tilboðin áður en samið verður við verktaka.
Um er að ræða gatnagerð og lagningu veitulagna í nýjum götum norðan núverandi byggðar á Hvolsvelli og á verkinu að vera lokið þann 1. desember næstkomandi.