Gröfutækni bauð lægst í Smáratúnið

Smáratún á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Gröfutækni ehf á Flúðum bauð lægst í endurgerð götunnar Smáratúns á Selfossi sem vinna á á þessu ári og næsta.

Verkið felur í sér endurgerð á götunni, það er jarðvegsskipti, endurnýjun stofnlagna fráveitu, vatnsveitu og hitaveitu, ásamt lagningu ídráttarröra fyrir Selfossveitur.  Að lokum skal malbika götu og ganga frá yfirborði gangstétta.

Tilboð Gröfutækni ehf var vel undir kostnaðaráætlun verkfræðistofunnar Eflu. Gröfutækni bauð 79,3 milljónir króna í verkið en kostnaðaráætlunin er 101,6 milljónir króna.

Tvö önnur tilboð bárust í verkið. Borgarverk bauð 93,5 milljónir króna og Aðalleið ehf í Hveragerði bauð 98,6 milljónir króna.

Fyrsta áfanga verksins á að vera lokið þann 15. nóvember næstkomandi en þá á að vera búið að leggja allar lagnir og styrktarlag. Í 2. áfanga á að leggja burðarlag og ljúka yfirborðsfrágangi og á þeim áfanga að vera lokið þann 15. júní á næsta ári.

Fyrri greinEyþór Orri íþróttamaður Hrunamanna 2018
Næsta greinSmávélar stækka Sambyggðina