Gröfutækni bauð lægst í yfirborðsfrágang

Gröfutækni ehf á Flúðum átti lægsta tilboðið í vinnu við yfirborðsfrágang á hluta íþróttavallarsvæðisins við Engjaveg á Selfossi.

Tvö tilboð bárust og hljóðaði tilboð Gröfutækni upp á tæpar 16,6 milljónir króna. Tilboð Jákvætt ehf í Reykjavík var rúmar 20,8 milljónir króna en kostnaðaráætlun verksins tæpar 18,6 milljónir króna.

Verkið felur í sér gröft og jarðvegsskipti, lagningu fráveitu- og snjóbræðslulagna, jöfnun yfirborðs, malbikun og lóðarlögun. Einnig er um að ræða þökulagningu á grasi og gróðursetningu ýmissa runna og trjáa.

Gert er ráð fyrir að verkið hefjist á næstu vikum en verklok eru áætluð þann 1. ágúst nk.