Gröfutækni bauð lægst í Kirkjuveginn

Gröfutækni ehf á Flúðum átti lægsta tilboðið í endurnýjun Kirkjuvegar á Selfossi sem Sveitarfélagið Árborg bauð út á dögunum.

Tilboð í verkið voru opnuð í síðustu viku og hljóðaði tilboð Gröfutækni upp á rúmar 59,8 milljónir króna. Kostnaðaráætlun Eflu er rúmar 58,7 milljónir króna þannig að öll tilboð voru yfir áætlun.

Þrír aðrir verktakar buðu í verkið, Grafa og grjót í Kópavogi bauð tæpar 60,6 milljónir króna, Borgarverk í Borgarnesi 62,5 milljónir króna og Rein sf í Hafnarfirði tæpar 76,5 milljónir króna.

Verkið felur í sér algjöra endurgerð á götunni frá Engjavegi að Fossheiði og á verkinu að vera lokið í síðasta lagi þann 15. september næstkomandi.