Gróflega vegið að grunnstoðum samfélagsins

Bæjarráð Hveragerðisbæjar fordæmir þá aðför ríkisvaldsins að Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem boðuð er í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

„Með þessum gjörningi er gróflega vegið að grunnstoðum samfélagsins og heilsu og öryggi íbúa svæðisins stefnt í hættu. Með tillögunum er í raun gert ráð fyrir að starfsemi sjúkrahússins á Selfossi leggist af í þeirri mynd sem við hingað til höfum þekkt,“ segir í ályktun sem samþykkt var samhljóða á fundi bæjarráðs Hveragerðis í kvöld.

„Heilbrigðisstofnun Suðurlands og önnur landsbyggðarsjúkrahús hafa um árabil setið undir stöðugum áróðri um óhagkvæma og gagnslitla sjúkrahúsþjónustu af hendi yfirvalda þrátt fyrir að ítrekað hafi verið sýnt fram á að þessi sjúkrahús eru sérlega hagkvæmar rekstrareiningar sem veita afbragðsþjónustu.

Um 70 starfsmenn munu missa vinnuna verði niðurskurðurinn að veruleika. Bæjarráð telur fyrirhugaðan niðurskurð ólíðandi árás að sunnlensku samfélagi og skorar á þingmenn og ráðherra að standa vörð um Heilbrigðisstofnun Suðurlands þannig að hún megi áfram vera sá máttarstólpi samfélagsins sem hún hefur hingað til verið,“ segir ennfremur í ályktuninni.

Fyrri greinMagnaður sigur Selfyssinga
Næsta grein„Basti tók þrumarann í hálfleik“