Gróflega gengið á hlut landsbyggðarinnar

Sveitarstjórn Rangárþings ytra skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða fyrirhugaðan niðurskurð á framlögum til heilbrigðis- og öldrunarstofnana á Suðurlandi.

Á fundi sveitarstjórnar í gær var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Sveitarstjórn Rangárþings ytra mótmælir harðlega þeim ósanngjarna og óréttláta niðurskurði sem fyrirhugaður er til heilbrigðis- og öldrunarstofnana á Suðurlandi og til annarra heilbrigðis- og öldrunarstofnana á landsbyggðinni allri með fjárlagafrumvarpi ársins 2011. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er Heilbrigðisstofnun Suðurlands gert að skera niður um 16% frá rekstri ársins 2010 sem þó er skertur frá því sem var fyrr. Þessi heiftarlegi niðurskurður verður til þess að þjónusta sjúkradeildar stofnunarinnar leggst meira og minna af og starfsemi stofnunarinnar verður alvarlega skert.

Sveitarstjórnin furðar sig á ósamræmi í framlögum á milli heilbrigðisstofnana í fjárlagafrumvarpinu. Svo virðist sem landshlutar og heilbrigðisstofnanir sitji ekki við sama borð þegar úthlutað er til rekstrar þeirra. Það vekur athygli, að mest er skorið niður af framlögum í fjárlagafrumvarpinu til þeirra heilbrigðisstofnana sem liggja fjærst frá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og á Akureyri. Í þessum landshlutum eiga sjúklingar um langan veg að fara til að sækja læknis- og hjúkrunarþjónustu. Gengið er gróflega á hlut landsbyggðarinnar vegna þessarar þjónustu og vegna framtíðar búsetuskilyrða. Íbúarnir munu sækja í öryggi er varðar nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og líka til að tryggja öryggi sitt og sinna sem best.

Stjórnvöldum er fullkunnugt um þann fjárhagsvanda sem heimilin standa frammi fyrir nú þegar og með þessu fjárlagafrumvarpi er verið að leysa upp heimilin á nýjan hátt. Með þessari framgöngu stjórnvalda er verið neyða íbúa dreifbýlisins til að flytja í öryggi er varðar heilbrigðisþjónustu í stóru byggðakjarnana og með því skapast önnur og stærri vandamál. Þessu er harðlega mótmælt á allan hátt.

Allir þurfa að leggjast á eitt og standa vörð um heilbrigðisþjónustuna og er hér með skorað á stjórnvöld og Alþingi að taka þátt í því með almenningi á Íslandi að verja grunnþjónustu við landsmenn, sem eru sjálfsögð mannréttindi.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra krefst þess að fyrirhugaður niðurskurður verið tekinn til endurskoðunar og að tryggt verði að hægt verði að halda uppi þeirri þjónustu sem verið hefur í heilbrigðis- og öldrunarmálum á Suðurlandi.

Tekið er undir ályktun SASS frá 8. okt. sl. og frá öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi um nauðsyn þess að tryggja heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi eins og verið hefur.