Gróðursettu tæpa hálfa milljón birkiplantna í september

Glaðbeittir gróðursetningarmenn úr hópi Gone West hvíla sig í landi sem áður hafði breyst í eyðimörk nú tekur að breytast í birkiskóg. Ljósmynd: Ana Marija Marinov

Starfsfólk verktakans Gone West hefur nú lokið gróðursetningu sem líklega er ein sú stærsta sem um getur í sögu skógræktar á Íslandi, þar sem einn hópur gróðursetur á sama svæði. Hópurinn gróðursetti hátt í hálfa milljón birkiplantna á Hekluskógasvæðinu og upp í Hrauneyjar í nýliðnum septembermánuði.

Alls voru gróðursettar 456.000 birkiplöntur í um 210 hektara svæði og gekk gróðursetning mjög vel. Starfsfólk Gone West er mjög vel þjálfað og því er vel vandað til verka sem eykur mjög líkurnar á að plönturnar lifi og komist í vöxt.

Og ekki er allt upp talið enn því annar verktaki, Guðjón Helgi Ólafsson, vinnur nú ásamt Einari Páli Vigfússyni að gróðursetja um 100.000 birkiplöntur neðar á sama svæði. Í allt verður því talsvert meira en hálf milljón birkiplantna komið í jörð á Hrauneyjasvæðinu áður en vetrar.

Þeir reitir sem nú hefur verið gróðursett í eru hugsaðir sem fræbankar fyrir framtíðina, að birkið sái sér sjálft úr þeim yfir nærliggjandi svæði á næstu áratugum. Ef vel tekst til mun birkið breiðast með sjálfsáningu yfir á þúsundir hektara í nágrenninu. Skógræktin hefur haft yfirumsjón með þessum verkefnum í samvinnu við Landgræðsluna sem unnið hefur að uppgræðslu á þessum svæðum á undanförnum árum.

Frá þessu er greint á heimasíðu Skógræktarinnar

Fyrri greinTeitur til liðs við Flensburg
Næsta greinVegleg gjöf til vélvirkjadeildar FSu