Gróðureldur við Þingvallavatn

Slökkviliðið á Selfossi var kallað út kl. 6:30 í morgun vegna elds sem logaði í gróðri í Þorsteinsvík við Þingvallavatn.

Það voru veiðimenn við vatnið sem tilkynntu Neyðarlínunni um eldinn sem logaði að mestu leyti í mosa.

Að sögn Ívars Arnar Sigurðssonar, varðstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu, náði eldurinn lítilli útbreiðslu en slökkviliðsmenn frá Selfossi og Laugarvatni voru kallaðir út. Hluta hópsins var snúið við en einn dælubíll frá Selfossi fór á vettvang og gekk slökkvistarf hratt fyrir sig.

Fyrri grein„Engu líkt að ná að skora”
Næsta greinJón Ingi fékk menningarviðurkenninguna