Gróður orðinn prýðilegur í Skúmstungum

Gnúpverjaafréttur verður opnaður þann 10. júlí til upprekstrar en heilmikið hefur gerst í gróðurfarinu á afréttinum síðustu daga.

Í tilkynningu frá afréttarmálanefnd segir að æskilegt sé að flutningur fjárins fari fram á fleiri en færri dögum svo það nái að dreifa sér um afréttinn en bunkist ekki á lítið svæði fyrstu dagana.

Gróður er orðinn prýðilegur í Skúmstungum og á fremsta hluta afréttarins. Er hærra dregur er gróður mun minni og er t.d. Starkaðsverið rétt að byrja að taka við sér. Snjór er víða í giljum og slökkum þegar hærra dregur og er m.a. vænn skafl yfir veginn innst á Löngöldu og annar minni við Blautukvísl.

Ekki hefur enn verið farið innar á afréttinn til að kanna aðstæður.