Grímur verður lögreglustjóri í Vestmannaeyjum

Dómsmálaráðherra hefur skipað Grím Hergeirsson í embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum að undangengnu mati hæfisnefndar. Grímur er skipaður í embættið frá og með næstkomandi mánudegi, 16. nóvember.

Grímur á langan feril að baki hjá lögreglunni síðan hann hóf störf hjá lögreglunni í Reykjavík árið 1996. Hann hefur starfað hjá lögreglunni á Selfossi sem lögreglumaður, rannsóknarlögreglumaður og varðstjóri og einnig sem kennari við Lögregluskóla ríkisins. Grímur starfaði á tímabili hjá Sveitarfélaginu Árborg, sem verkefnastjóri íþrótta-, forvarna og menningarmála og á árunum 2009-2014 starfaði hann sem lögmaður í samstarfi við aðra og eftir það sem löglærður fulltrúi hjá sýslumanninum á Selfossi.

Árið 2015 færði hann sig til lögreglustjórans á Suðurlandi og var fyrst rannsóknarlögreglumaður, síðar löglærður fulltrúi ákærusviðs, en frá 2017 staðgengill lögreglustjóra og yfirmaður ákærusviðs embættisins. Grímur hefur tvisvar verið settur lögreglustjóri á árinu 2020 í samtals fimm mánuði, fyrst á Suðurlandi en síðan á Suðurnesjum.

Sjö umsækjendur voru um embættið í Vestmannaeyjum.

Fyrri greinÁætlunarflug hefst milli Hafnar og Reykjavíkur
Næsta greinGul viðvörun: Stormur undir Eyjafjöllum