Grímur tímabundið settur lögreglustjóri á Suðurnesjum

Grímur Hergeirsson, staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi, verður tímabundið settur í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum, frá 1. september til 1. nóvember nk.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, tekur við starfi sérfræðings í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu um næstu mánaðamót. Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu segir að flutningurinn gefi ráðuneytinu og lögreglunni færi á að nýta sérþekkingu Ólafs Helga og reynslu á sviði landamæravörslu næstu árin.

Grímur hefur verið yfirlögfræðingur ákærusviðs og staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi frá 1. apríl 2017 og var settur lögreglustjóri á Suðurlandi frá 1. janúar til 15. mars síðastliðinn. Hann lauk prófi frá Lögregluskóla ríkisins árið 1998 og starfaði hjá lögreglunni á Selfossi til ársins 2004. Hann lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og málflutningsréttindum fyrir héraðsdómi sama ár. Hann var starfandi lögmaður til ársins 2014 og frá þeim tíma löglærður fulltrúi hjá sýslumanninum á Selfossi og frá 2015 hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi.

Fyrri greinBændur muni tveggja kinda regluna
Næsta greinÓku ógætilega í kringum sauðfé