Grímsvatnagossins minnst í sumar

Gosið í Grímsvötnum. Ljósmynd/Ólafur Sigurjónsson

Menningarmálanefnd Skaftárhrepps ætlar að minnast þess í sumar að í vor eru tíu ár frá Grímsvatnagosinu 2011.

Gosið stóð í eina viku en það hófst laugardaginn 21. maí 2011. Mikið öskufall var fyrstu dagana en svo dró úr gosinu og öskufallinu og viku síðar var það búið.

Samþykkt hefur verið að halda hátíð 5. og 6. júní næstkomandi til að minnast þessara daga. Undirbúningur er þegar hafinn en starfsmenn vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs ætla að taka þátt og fá íbúa, jarðfræðinga og fleiri til að koma og ræða um gosið.

Skólastjóri tónlistarskóla Skaftárhrepps, Zbigniew Zuckowicz, ætlar að semja tónverk og sýna myndband um leið og það er flutt. Tríó sands og hrauna, sem eru þau Zbigniew, Teresa og Brian, mun flytja verkið. Menningarmálanefndin er búin að safna ljósmyndum fyrir myndbandið en það mega gjarnan berast fleiri myndir.

Öllum er velkomið að vera með, hvort sem það eru skólar, félög, stofnanir eða einstaklingar. Það má sýna myndlist eða skúlptúra, listaverk úr hrauni eða ösku, segja frá þessum dögum, flytja tónlist, dansverk eða annað sem fólki dettur í hug.

Þetta er hátíð okkar íbúa og gesta í Skaftárhreppi til að minnast þessara daga sem voru okkur erfiðir en allt fór þó betur en á horfðist í byrjun, segir í tilkynningu frá Menningarmálanefnd Skaftárhrepps. Þeir sem vilja vera með geta sent póst á kynning@klaustur.is eða talað við nefndina á förnum vegi en hana skipa Gunnar Erlendsson, Lilja Magnúsdóttir og Guðmundur Fannar Markússon.