Grímsnes- og Grafningshreppur sveitarfélag ársins 2023

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Annað árið í röð varð Grímsnes- og Grafningshreppur í 1. sæti og Bláskógabyggð í 2. sæti þegar kom að því að útnefna Sveitarfélög ársins 2023. Viðurkenningarnar voru afhentar í gær.

Útnefningin er á grunni niðurstaðna viðhorfskönnunar félagsfólks tíu bæjarstarfsmannafélaga hjá sveitarfélögum á þeirra félagssvæðum og var könnunin gerð í samstarfi við Gallup. Þeirra á meðal er FOSS, félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi. Þetta er annað árið í röð sem slík könnun er gerð og þeim sveitarfélögum veitt viðurkenning sem skara fram úr.

Tilgangurinn með könnuninni er meðal annars að hvetja stjórnendur sveitarfélaga til að veita starfsumhverfi meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf en ekki síður er tilgangurinn að veita góðum vinnustöðum viðurkenningu fyrir að hlúa vel að starfsfólki.

Reiknuð var heildareinkunn út frá níu þáttum sem spurt var um í könnuninni en það voru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd vinnustaðar, ánægja og stolt og jafnrétti.

Líkt og í fyrra fékk Grímsnes- og Grafningshreppur flest stig í heildarniðurstöðunum, eða 4.403. Þar á eftir kom Bláskógabyggð með 4.349 stig, þá Sveitarfélagið Vogar með 4.236 stig og í fjórða sæti Sveitarfélagið Skagaströnd með 4.217 stig.

Grímsnes- og Grafningshreppur fékk hæstu einkunnir allra fyrir launakjör, vinnuskilyrði, jafnrétti og deildi efsta sætinu hvað varðar þáttinn sjálfstæði í starfi með Bláskógabyggð. Bláskógabyggð var auk þess með hæstu einkunn allra sveitarfélaganna fyrir stjórnun, starfsanda og ímynd.

Fulltrúar sveitarfélaganna sem voru útnefnd tóku við viðurkenningum við hátíðlega athöfn. Frá hægri: Ólafur Þór Ólafsson staðgengill sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagastrandar, Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógarbyggðar og Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga. Vegna ófærðar komst fulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps ekki til að taka á móti viðurkenningu sveitarfélagsins en það var stigahæst, annað árið í röð.
Fyrri greinMenningargangan einn af hápunktum mánaðarins
Næsta greinTop Gun er uppáhalds bíómyndin