Grímsnes- og Grafningshreppur sveitarfélag ársins 2022

Hulda Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, Guðný Helgadóttir, launafulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps og Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar. Ljósmynd/Margrét Sigurðardóttir

Grímsnes- og Grafningshreppur hlaut í dag útnefninguna Sveitarfélag ársins 2022. Sveitarfélög á Suðurlandi skipuðu sér í fjögur efstu sætin en í öðru sæti varð Hrunamannahreppur, Flóahreppur varð í þriðja sæti og Bláskógabyggð í því fjórða.

Guðný Helgadóttir, launafulltrúi GOGG, tók við viðurkenningunni og verðlaunagripnum fyrir hönd sveitarstjóra í dag.

Tilgangurinn með könnun um Sveitarfélag ársins er að hvetja stjórnendur sveitarfélaganna til að veita starfsumhverfinu meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf.

Alls voru tæplega 5.000 manns í heildarúrtaki bæjarstarfsmannafélaganna tíu en tæplega 4.700 í endanlegu úrtaki. Þar af voru tæplega 1.400 svör notuð í úrvinnslu eða tæp 30% af endanlegu úrtaki.

Þau sveitarfélög sem verma fjögur efstu sætin fá sæmdarheitið Sveitarfélag ársins 2022. Hljóta þau einnig verðlaunagrip sem hannaður er og smíðaður af Sigrúnu Björgu Aradóttur hjá Agndofa hönnunarhúsi. Í verðlaunagripnum er kennimerki viðurkenningarinnar, níu blaða bóm sem vísar í þá þætti sem mynda saman blómlegt og heilbrigt starfsumhverfi hvers sveitarfélags.

Fyrri greinKirkjubæjarklaustur komið með háhraða 5G net
Næsta greinValsmenn slökktu vonarneista Þórs í lokin