Gríðarlegur heiður að fá þetta tækifæri

Ása Berglind Hjálmarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Ása Berglind Hjálmarsdóttir frá Þorlákshöfn hefur verið ráðin sem verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu. Hún hefur þegar tekið til starfa en um er að ræða tímabundna stöðu til eins árs.

Ása Berglind lauk meistaraprófi í menningarstjórnun með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarf frá Háskólanum á Bifröst árið 2021. Hún lauk BA gráðu frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007 og lærði einnig listkennslu á meistarastigi í sama skóla.

„Það er gríðarlegur heiður að fá tækifæri til að koma að stefnumótun og framkvæmd viðburða í tónlistarhúsi þjóðarinnar. Í Hörpu starfar öflugur hópur af fagfólki og er ég full eftirvæntingar fyrir komandi tímum sem hluti af þessum góða hópi. Harpa er tónlistarhús á heimsmælikvarða og magnað að sjá hvað hefur áorkast á þessum ellefu árum síðan húsið opnaði. Stöðug þróun er í starfi Hörpu sem endurspeglast meðal annars í frekari áherslum í dagskrárgerð, til dæmis í barnamenningu“, segir Ása Berglind.

Fyrri greinLeitað að manni sem áreitti stúlkubarn
Næsta greinEngin vandræði í Krikanum