„Gríðarlega eldfimt ástand“

Slökkviliðsmenn fara um borð í þyrluna á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur í hádeginu flutt slökkviliðsmenn frá Selfossi að Hæðarenda í Grímsnesi þar sem eldur brennur í sinu.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, sagði í samtali við sunnlenska.is í hádeginu að í dag verði send út yfirlýsing sem bannar meðferð opins elds á Suðurlandi.

„Það er gríðarlega eldfimt ástand allsstaðar í sýslunni og núna var að koma upp eldur í Grímsnesi, ekki á þéttu sumarhúsasvæði en engu að síður er svo þurrt að þetta getur borist um allt. Við höfum auðvitað áhyggjur af útvíkkun á ástandinu því eldurinn getur farið svo hratt yfir og það eru sumarhús þarna í nágrenninu,“ sagði Pétur.

„Það er ekki mjög stórt svæði sem er að brenna, eins og er, við erum að reyna að grípa það áður en það verður stórt. Það er á annan tug slökkviliðsmanna farinn á staðinn frá Selfossi ásamt tankbíl frá Hveragerði,“ bætti Pétur við.

Skoða að leigja skjólu frá Svíþjóð
Þrátt fyrir að þyrla Landhelgisgæslunnar sé á staðnum er ekki hægt að nýta hana í slökkvistarfið þar sem eina slökkviskjólan á Íslandi eyðilagðist í brunanum í Heiðmörk á dögunum.

„Skjólan er ónýt og orðin gömul. Það er hópur að vinna að þessu máli og það var fundað með Almannavörnum í morgun um möguleikann á því að fá leigða skjólu frá Svíþjóð, því það tekur töluverðan tíma að kaupa þessar skjólur. Svo er spurningin hver á að borga, og hvernig á að borga og hversu margar skjólur á að kaupa. Við hefðum viljað kaupa ekki færri en þrjár skjólur,“ sagði Pétur að lokum.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinByrjað að bólusetja 55-60 ára
Næsta greinHjálmlaus farþegi á vespu slapp með skrekkinn