Gríðarmikill viðbúnaður við Ölfusá

„Hér eru um það bil eitthundrað leitarmenn úr allri Árnessýslu og við reiknum með að vera frameftir nóttu að leita,“ sagði Viðar Arason, í svæðisstjórn björgunarsveita, í samtali við sunnlenska.is laust fyrir klukkan eitt í nótt.

Gríðarmikill viðbúnaður er á og við Ölfusá þar sem bíll sást aka út í ána fyrir ofan Básinn við Selfosskirkju um klukkan 22:30 í kvöld. Talið er að ökumaðurinn hafi verið einn í bílnum. Áin er 25-30 metra djúp á þessum stað og mjög straumþung.

Að sögn Viðars hafa fimm bátar verið á ánni í kvöld ásamt vatnasleða auk þess sem bakkar hennar eru gengnir. Leitarsvæðið afmarkast af þeim stað sem bíllinn fór út í og niður að Selfossflugvelli.

„Sagan segir okkur að þetta sé svæðið sem leita þarf á,“ segir Viðar. „Um leið og búið er að fullkemba svæðið munum við minnka allar bjargir niður en við höldum fund núna klukkan eitt um framhald leitarinnar og hvað verður gert í fyrramálið. Þetta er klárlega langt útkall og viðbúnaðurinn mjög mikill.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar mætti á svæðið uppúr miðnætti en hún notar hitamyndavél til leitarinnar. „Þyrlan sér allt hérna á bökkunum og vatnsfletinum en ekki ofan í vatnið, það er of kalt til þess.“

Auk eitthundrað björgunarsveitarmanna eru kafarar frá sérsveit ríkislögreglustjóra og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins til taks á vettvangi. Brunavarnir Árnessýslu eru með tvo dælubíla með öflugum ljóskösturum og talsverðan mannskap.

„Slökkviliðið er að minnka sínar bjargir núna klukkan eitt en báðir bílarnir verða hérna áfram með ljósin. Við erum líka með ljósabúnað frá Alþjóðabjörgunarsveit Landsbjargar og ljósabúnað sem við fengum lánaðan frá JÁVERK og EB kerfum hér á Selfossi. Síðan erum við að fá einhverskonar sónarskanna frá Björgunarfélagi Akraness sem skannar botninn á ánni. Einnig fáum við stóran aðgerðarstjórnunarbíl frá höfuðborgarsvæðinu, Björninn, sem verður staðsettur hér á árbakkanum,“ segir Viðar að lokum.

Fyrri greinÞórir Geir sigraði með glæsibrag
Næsta greinJáverk bauð lægst í Sunnulæk